Fréttir
Metnaðarfullar áætlanir um upplýsingagjöf á Netinu:
Netgáttin Upplýsingaheimar stækkar
Upplýsingaheimar Skýrr (uh.is) hafa gengið í gegnum algera endurnýjun hvað útlit og virkni varðar. Nú eru allar upplýsingar í Upplýsingaheimum uppfærðar reglulega og aðgengilegar í þægilegu viðmóti sem mætir frekar kröfum fyrirtækja og stofnana í dag.
Nýjar tengingar, ný þjónusta
Um leið og Upplýsingaheimar voru endurhannaðir voru smíðaðar nýjar tengingar eða gagnabrýr í alla helstu upplýsingabanka og upplýsingakerfi. Þar má nefna Þjóðskrá, Fyrirtækjaskrá og Ökutækjaskrá.
Á næstu vikum og mánuðum verður kynnt til sögunnar ýmis ný þjónusta í Upplýsingaheimum, ásamt því sem markhópavinnsla verður stóraukin og bætt. Hér á eftir verður tæpt á því helsta sem fyrirséð er á næstunni.
Þjóðskrá
Þjóðskrá verður aðgengileg með símanúmerum. Boðið verður upp á uppflettingu í þjóðskrá sem tengd er við símaskrá frá fyrirtækinu Já, sem miðlar upplýsingum um öll símanúmer á Íslandi. Þá verður einnig boðið upp á að fá þjóðskrá í formi XML-skeyta. Það gefur fyrirtækjum kost á að gerast áskrifendur að þjóðskrá hjá Skýrr. Þetta hefur þá kosti í för með sér að upplýsingarnar eru uppfærðar oft á dag í stað mánaðarlega eins og áður tíðkaðist.
Fyrirtækjaskrá
Fyrirtækjaskrá verður í boði með auknum upplýsingum sem verður tilkynnt síðar um. Einnig verður hægt að fá símanúmer fyrirtækja tengd inn í fyrirtækjaskrá. Þá verður sami háttur á í XML-skeytum og í þjóðskráráskrift.
Nýjar skrár
Þá verða nokkrar nýjar skrár svo sem Vinnuvélaskrá og Skipaskrá gerðar aðgengilegar í Upplýsingaheimum.
Lánsumsóknir
Möguleiki verður að senda lánsumsóknir til fjármögnunaraðila beint úr Upplýsingaheimum, til dæmis ef um bifreiðaumboð eða bifreiðasölu er að ræða.
Mögulegt verður að fletta upp ferli notaðra bifreiða erlendis, svo sem gegnum Carfax í Bandaríkjunum.
Aðilar sem hafa áhuga á að sækja um aðild að Upplýsingaheimum gera það á vefnum. Slóðin er uh.is.